Fótbolti

Börn Maradona vilja flytja jarð­neskar leifar hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Armando Maradona fagnar hér heimsmeistaratitlinum sumarið 1986.
Diego Armando Maradona fagnar hér heimsmeistaratitlinum sumarið 1986. Getty/Paul Bereswill

Börn knattspyrnugoðsins Diego Armando Maradona hafa biðlað til dómstóls í Argentínu um að leyfi til flutnings á jarðneskum leifum hans.

Börnin vilja fá að flytja föður sinn úr gröf í einkakirkjugarði í nýtt grafhýsi sem er þessa dagana í byggingu í Buenos Aires.

Með þessu vilja þau búa til tækifæri fyrir aðdáendur alls staðar að úr heiminum til að sýna honum virðingarvott. Maradona hefur verið lengi í guðatölu út um allan heim og slíkur staður yrði fljótt vinsæll ferðamannastaður í borginni.

Maradona lést í nóvember 2020 þegar hann var nýbúinn að halda upp á sextugs afmælið sitt.

Nýja grafhýsið hefur fengið nafnið „Memorial del Diez“ og er í byggingu í Puerto Madero hverfinu. Í bréfi til dómara segir fjölskyldan að grafhýsið sé á mun betri og öruggari stað en þar sem hann hvílir í dag. Bréfið er sagt koma frá öllum erfingjum Maradona.

Maradona leiddi argentínska landsliðið til sigurs í heimsmeistarakeppninni 1986 þar sem hann var með fimm mörk og fimm stoðsendingar í sjö leikjum. Maradona skoraði þá bæði mörkin í bæði átta liða og undanúrslitunum og lagði einnig upp sigurmarkið í úrslitaleiknum.

Maradona varð sá fyrsti í sögunni til að verða tvisvar sinnum dýrasti knattspyrnumaður heims eða bæði þegar Barcelona (1982) og Napoli (1984) keyptu hann.

Maradona var jarðaður í litlum kirkjugarði sem heitir Jardín de Bella Vista og er í bænum San Miguel sem er um fimmtíu kílómetra norður af höfuðborginni Buenos Aires.

Puerto Madero hverfið er aftur á móti á besta stað í höfuðborginni þangað sem ferðamenn sækja mikið enda mikið um bari og veitingastaði í nágrenninu.

Dómstóll þarf að leyfa flutninginn þar sem dómsmál er enn í gangi gegn átta umsjónarmönnum Maradona í tengslum við dauða hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×